Tannréttingar með föstum tækjum (spöngum) eru styrktar að hluta til af hinu opinbera fyrir börn og unglinga að 21. árs aldri.
Sjá reglur hér: https://island.is/tannlaekningar/tannrettingar
Veittur er aukinn styrkur ef tann- og/eða kjálkaskekkja uppfyllir sérstök ákvæði í reglugerð. Til að sækja um slíka styrki, þarf viðkomandi tannréttingasérfræðingur að sækja sérstaklega um slíkt fyrir hönd viðkomandi sjúklings. Fagnefnd Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands metur síðan hvort viðkomandi fellur undir ákvæði reglugerðarinnar.
Fagnefnd Sjúkratrygginga Íslands er samsett af Tryggingayfirtannlækni, lögfræðingi og nokkrum sérmenntuðum tannlæknum.
Í felstum tilvikum eru styrkir frá Sjúkratrygginum Íslands háðir því að viðurkenndur tannréttingasérfræðingur vinni verkið.
Tannréttingar eru ekki eingöngu fyrir börn og unglinga. Á síðustu árum hafa fullorðnir sótt í auknum mæli til tannréttingasérfræðinga. Sjúkratryggingar Íslands styrkja ekki slíka meðferð, nema kjálkaskekkja sé það mikil að þörf sé á kjálkaaðgerð og fagnefndin viðurkenni alvarleika skekkjunnar.
Til að kanna rétt viðkomandi einstaklings, þarf að taka gögn (röntgenmyndir, ljósmyndir, módel og fl.). Tannréttingasérfræðingur greinir gögnin og vinnur síðan meðferðaráætlun sem hann sendir til fagnefndarinnar.
Í sumum tilfellum geta fullorðnir sótt um styrk vegna eigin tannréttinga hjá sínu stéttarfélagi.